Afleit þýðing

Að útleggja „faggot“ sem „hommi“ minnir mig á Stardust, þegar „whoopsie“ (eða var það „poof“?) var þýtt sem „hýr“. Svona gengur bara ekki upp. „Hommi“ er tiltölulega meinlaust orð, þannig séð. Það er eiginlega bara íslenskun á „homosexual“ sem er nú ekki svo slæmt orð. „Faggot“ er öllu sterkara, alveg eins og „whoopsie“ er sterkara en „hýr“.

Það bara hlýtur að vera hægt að finna eitthvað sterkara orð heldur en „hommi“ - svona ef það á að útleggja þetta almennilega. Eins og þetta stendur núna, þá er þetta ekkert ólíkt því að þýða „nag“ sem „hestur“ - þegar t.d. „bikkja“ væri mun betri þýðing. En kannske kunni blaðamaður ekki við að nota jafn gróf orð á íslensku eins og á ensku.


mbl.is BBC ritskoðar jólalag Pogues
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

89 ára gamalt vopnahlé

Ellefta nóvember 1918, fyrir sléttum áttatíu og níu árum, lauk Fyrri heimstyrjöld. Svona formlega séð - væntanlega fréttu ekki allir af því á sama tíma og börðust aðeins lengur. Þetta er skemmtileg bjartsýni í íslenskunni - það eru bara tvær heimsstyrjaldir, sú fyrri og sú seinni. Hér tölum við sko ekki um fyrstu og aðra heimsstyrjöld!

En hvernig má þá koma fyrir þeirri þriðju, ef hún skyldi nú skella á? Ætli það fólk sé til sem myndi hreinlega neita því að um heimstyrjöld sé að ræða? „Sjáið nú til: samkvæmt íslenskri málvenju eru aðeins tvær heimsstyrjaldir, eins og ljóslega má sjá af nöfnum þeirra, sem og orðabókarskilgreiningum á 'fyrri' og 'seinni'.“ Stundum þýðir bara ekkert að vísa í málvenju eða orðabækur. Hvers vegna reynir fólk það þá þegar verið er að tala um hjónaband?

Hversu stór þyrfti styrjöldin annars að vera til að mega kallast „heimstyrjöld“? Hversu víða þyrfti að berjast, hve margir þyrftu þátttakendurnir að vera? Eða er þetta kannske bara spurning um hve margir þyrftu verða fyrir áhrifum vegna hennar - og þá hve miklum áhrifum? Hryðjuverkastríðið mikla hefur nú áhrif á ansi marga - eigum við að kalla það heimsstyrjöld?

Eitt ætti að minnsta kosti að vera nokkuð ljóst. Það er engin lausn að fletta upp í orðabók til að komast að niðurstöðu.


Ómennsk samskipti

Það er tími til kominn að menn reyni að þýða hvalasöng. Hvað er aftur langt síðan menn túlkuðu táknmál eða látbragð býflugna – það er að segja, dansinn sem þær nota til að láta hinar flugurnar í búinu vita af fæðu? Nú geri ég mér engar vonir um að þessir hvalir hafi neitt merkilegt að segja okkur. Ég held að þeir eigi ekki eftir að leysa neinar gátur fyrir okkur, og þaðan af síður þykir mér líklegt að menn og hvalir muni nokkru sinni geta sest niður og spjallað saman - það er að segja, maðurinn situr og hvalurinn svamlar í kring á meðan.

Menn og hvalir að spjalla saman um heimspeki eða trúmál eða stærðfræði? Mér þykir það ósennilegt, og þótti það ósennilegt áður en ég las fréttina. Ég held að það hafi ekki einu sinni tekist að halda uppi gáfulegum samræðum við simpansa og górillur - sem þó tókst víst að kenna táknmál (þó hef ég heyrt ýmsar sögur af því, hve vel þeim tókst að læra táknmál og mynda skiljanlegar setningar). Kannske eru þó hvalir öpum greindari. En eru þeir nógu greindir til að við getum grætt eitthvað á að skilja þá - geta þeir sagt okkur eitthvað hagnýtt? Varla.

En til hvers þá að þýða söng hvala, ef við getum ekki notfært okkur það? Ég veit aldrei almennilega hvernig skuli svara svona spurningum. Til hvers að reyna að skilja heiminn betur – sérstaklega þegar skilningurinn gerir engan féríkari og enginn verður saddari eða heilbrigðari fyrir vikið? Ég veit ekki einu sinni hvort svona spurningar séu svara verðar –og finnst raunar áhugaverðara að velta fyrir mér hvers lags persónur og karakterar myndu yfirleitt spyrja svona spurninga.

Aftur að fréttinni. Hvað þýðir það eiginlega þegar Rebecca segir þau hafa fundið 34 mismunandi hljóð? Hvað eru til dæmis mörg mismunandi hljóð í íslensku? Raddað og óraddað „s“ er til dæmis sitt hvort hljóðið, en ég veit ekki til þess að það breyti neinu um merkingu orðs hvort s-hljóðið sé raddað eða ekki. Að minnsta kosti ekki á íslensku - í ensku getur það þó skipt máli (samanber „price“ og „prize“), og efalaust í fleiri málum. Getum við þá kannske sagt að hvað merkingu íslenskra orða varðar, þá sé „s“ og „z“ sama hljóðið, en til dæmis í ensku eða þýsku sé um tvö hljóð að ræða?

Þegar það breytir engu fyrir merkingu orðsins hvort hljóðið sé raddað eða ekki, þá sýnist mér að eitthvað svipað sé uppi á teningingum eins og þegar um tvær ólíkar gerðir bókstafsins „A“ er að ræða - segjum bara með Times New Roman-letri, og handskrifað. Hvernig sem maður svosem skrifar A, þá er alltaf um sama stafinn að ræða. Sömu sögu má svo segja um heil orð. Merking orðins „aðalsmaður“ breytist ekki eftir því hvaða letur er notað. „Aðalsmaður“ er sama orð og „aðalsmaður“.

Þegar ég segi „aðalsmaður“ þá er ég að segja það sama og þegar frændi minn segir „aðalsmaður“. Við segjum báðir sama orðið, við gefum báðir frá okkur sömu hljóðin (lauslega myndi ég giska á að í þessu orði séu sjö mismunandi hljóð; „a“-hljóðið kemur þrisvar fyrir og „ð“ tvisvar). Við gefum frá okkur sömu hljóðin þótt við höfum gerólík talfæri og frændi er mér talsvert djúpraddaðri, og við berum orðið eflaust fram á ólíka vegu. Enskur kunningi minn myndi síðan bera þetta fram á einhvern þriðja veg - en samt væri hann að segja það sama og við, og óhætt að halda því fram að hann væri líka að gefa frá sér sömu hljóð og við.

En myndu hvalirnir líta svo á? Eða væri kannske réttlætanlegt, frá þeirra sjónarhóli, að segja sem svo að hér væri um 21 mismunandi hljóð að ræða? Myndu þeir kannske segja að þetta væri bara eitt hljóð?Að geta gert sér grein fyrir því að þessi hljóð sem ég, frændi minn og enskur kunningi minn gáfum frá okkur séu í raun sömu hljóðin, þótt þau hljómi talsvert ólíkt sín á milli - það væri bara talsvert afrek.

Það vantar semsagt í þessa frétt hvað átt er við með „10 mismunandi hljóð“, hvað þá „34 mismunandi hljóð“. Til samanburðar hefði því mátt nefna hve mörg mismunandi hljóð eru í íslensku (eða ensku, sé fréttin þýdd).


mbl.is Vísindamenn reyna að þýða söng hvalanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Chaomphalos

Höfundur

Þorsteinn Skúlason úr Skólastræti
Þorsteinn Skúlason úr Skólastræti

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband